Category Archives: Óflokkað

Tilkynning frá Fræðslusviði vegna innritunar og flutnings barna á milli skóla

Umsóknir um leikskóla og umsóknir um flutning milli leikskóla.

Aðalinnritun í leikskóla á Akureyri hefst í byrjun marsmánaðar n.k. með því að foreldrar fá sent innritunarbréf í tölvupósti. Því er mjög mikilvægt að umsóknum um leikskólapláss verði skilað inn fyrir 15. febrúar n.k. Sótt er um á rafrænu formi á https://www.akureyri.is/is/thjonusta/menntun/leikskolar

Foreldrum er bent á mikilvægi þess að yfirfara netföng sín vandlega í umsókninni.

Þeir foreldrar sem hafa hug á að flytja barn á milli leikskóla er bent á að mikilvægt er að umsóknum um flutning verði skilað inn fyrir 15. febrúar n.k. Ef umsóknum er skilað eftir 15. febrúar er ekki hægt að tryggja flutning á árinu. Þar sem verið er að skipta um leikskólakerfi í leikskólum bæjarins er ekki hægt að sækja rafrænt um flutning milli leikskóla. Hægt er að sækja um flutning hjá leikskólastjóra barnsins og á fræðslusviði Akureyrarbæjar í símum 460-1453 eða 460-1455 eða með því að senda tölvupóst á sesselja@akureyri.is

Nánar um innritun

Foreldrar sækja um ákveðin leikskóla í aðalval og hefur sá leikskóli ákveðið vægi í innritunarferlinu. Í fyrstu umferð innritunar er  umsóknum raðað inn eftir kennitölum í þá skóla sem settir eru í aðalval. Þegar umsóknir úr aðalvali hafa verið afgreiddar og enn eru laus pláss í viðkomandi skóla, er umsóknum úr varavali raðað inn eftir kennitölum.

Ef ekki er hægt að verða við óskum foreldra um þann skóla sem þeir setja í aðalval, er þeim umsóknum raðað inn í skólann sem þeir settu í varaval. Unnið er með þessar umsóknir eftir að innritun úr aðalvali er lokið. Þetta þýðir að umsókn úr varavali fer ekki fram fyrir umsókn í aðalvali hvers skóla fyrir sig.

Ef foreldrar sækja eingöngu um einn skóla og fá ekki tilboð um innritun barna sinna í hann er þeim boðið leikskólapláss annarsstaðar.

Af árgangi 2018 er gert ráð fyrir að innrita börn fædd í janúar, febrúar, mars og apríl. Vegna aldursamsetningar í leikskólum má gera ráð fyrir að ekki verði hægt að innrita þessi allra yngstu börn í alla leikskóla bæjarins.

Dagsetningar aðlögunar liggja fyrir í byrjun marsmánaðar.

Notalegheit rétt fyrir jól

Það var notalegt í Seli síðasta daginn fyrir jól. Börnum á Álfadeild og Dvergadeild var boðið upp á leik á báðum deildum ásamt því að fara í nudd til Hugrúnar í fundarherberginu. Það fara því allir slakir í jólafríið sem við vonumst til að verði friðsælt og ánægjulegt fyrir börn, foreldra og starfsfólk leikskólans.

Gleðileg jól

 

Haustið í Holtakoti

Nú er vetrarstarfið komið í gang og gengur ljómandi. Það verða 37 börn í skólanum í vetur og hefur hópur yngstu barna ekki verið fjölmennari í manna minnum. Þau hafa aðlagast vel og leika við hvern sinn fingur. Eldri börnin eru farin að heimsækja vinnustaði foreldranna og gera ýmsar tilraunir. Í vetur ætlum við að vinna í námslotum þar sem hver námsþáttur er tekinn fyrir í 5 vikur og og unnið með hann á fjölbreyttan hátt. Þannig er auðvelt og skemmtilegt að taka fyrir ákveðin þemu og vinnan með þau verður markvissari. Þetta er líka tilraun til að létta vinnu kennara. Við sjáum hvernig til tekst en þetta lofar góðu. Það gerir líka verkefnið okkar Hugarró. Flest börnin, fullorðna fólkið reyndar líka, eru að ná góðri slökun í hádegisstundinni og jafnvel oftar yfir daginn. Ekki veitir af því það þarf að nota mikla orku í 8-8,5 klst. leikskóladag!

Við erum mætt í skólann!

Eins og sumarfríið er gott þá er líka gott að komast aftur í skipulagið. Það á bæði við um börn og fullorðna, ekki satt?

Vonandi hafið þið haft það gott í sumar kæru foreldrar og börn. Þessa vikuna erum við að aðlaga ný börn inn í skólana og það fer ljómandi vel af stað. Við byrjum rólega, notum hverja góðviðrisstund til útiveru og í ágúst eru báðir skólar með þemavikur þar sem börnin skoða og vinna með steina, blóm skordýr ofl. Um miðjan september hefjum við svo skipulagt starf.

 

Sumarlokun og aðlögun nýrra barna

Tíminn flýgur og áður en við vitum af er komið sumar og 20 stiga hiti!

Við förum í sumarfrí föstudaginn 22. júní og opnum aftur 23. júlí kl. 10.00.
Aðlögun nýrra barna hefst svo þriðjudaginn 24. júlí kl.9.00. Þá koma flest börnin inn en við innritum 11 börn í Kot og 15-16 í Sel. Fækkað verður í báðum skólum næsta skólaár frá því sem var í vetur. Gaman er að segja frá því að við fáum nokkur systkini til okkar í sumar í báða skóla eins og reyndar undanfarin ár. Alltaf gaman að fá systkini í hópinn 🙂

Söngvaflóð í Hofi á Degi leikskólans 6. febrúar

Söngvaflóðsskemmtun

Á degi leikskólans, 6. febrúar munu tveir elstu árgangarnir syngja í Hofi á sameiginlegri söngskemmtun leik- og tónlistarskóla Akureyrar. Foreldrum og bæjarbúum er boðið að koma og hefst söngstundin klukkan 10:00. Börnin frá Hulduheimum verða auðkennd með bláum hárböndum.

Eftir hádegisslökun gerum við okkur glaðan dag í skólanum, Þóranna og Anna María eru vísar með að baka eitthvað gómsætt handa okkur og við skemmtum okkur eins og aðra
daga á einn eða annan hátt.                                                   

Jólakveðja

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Hlökkum til að eiga gott samstarf á árinu 2018, árinu sem við ætlum að læra að slaka á og njóta augnabliksins.
Við ætlum að feta fyrstu skrefin með börnunum í verkefninu okkar „Hugarró – núvitund og hugleiðsla í leikskóla“, njóta lífsins og kynnast fullt af nýjum og spennandi verkefnum.

Skólinn er lokaður 02. janúar vegna starfsdags en við sjáumst hress og kát þann 03. janúar 2018.

1 2 3 5